Heilsutengd ferðaþjónusta

Ferðaþjónusta  á  Íslandi  hefur  vaxið  verulega  á síðustu  árum  og  vænta  má  mikils  af  þessari atvinnugrein á komandi árum. Heilsutengd ferðaþjónusta er nú þegar nokkur í landinu og getur vaxið verulega ef vel er á haldið. Auðlindir Íslands og styrkleikar  varðandi heilsutengda ferðaþjónustu  eru  einkum hreint loft, óspillt náttúra, nægilegt gott vatn og heita vatnið sem Ísland býr yfir. Hátt menntunarstig þjóðarinnar,  vel menntaðar heilbrigðisstéttir og  gott heilbrigðiskerfi  eru líka mikilvægar  auðlindir.

Ímynd Íslands sem hreins, fagurs og ómengaðs lands er afar dýrmæt og leggja þarf mikla áherslu á að styrkja og viðhalda þeirri ímynd. Flestir þeir þættir sem hamla eða efla ferðaþjónustu almennt hafa einnig áhrif á heilsutengda ferðaþjónustu. Auk  þeirra  heilsutengdu  þátta sem  „heilsuferðamaðurinn“  tekur  þátt  í,  er  margt  annað sem
hefur áhrif á val hans. Gæði þjónustu, góður aðbúnaður og möguleikar á fjölbreyttri menningu og afþreyingu eru allt mikilvægir þættir til að ná til þess hóps sem leitar í auknum mæli eftir að nota frítíma sinn til að auka á vellíðan sína og heilbrigði, eða leitar sér lækningameðferða utan sinnar heimabyggðar.

Heimild: Heilsutengd ferðaþjónusta; skýrsla nefndar um heilsutengda ferðaþjónustu sem rituð var á vegum samgönguráðuneytisins árið 2000.